Tímarammar í vetur
Skrifað af Katrín Sigríður Steingrímsdóttir   
Miðvikudagur, 08. Október 2014 11:00

Tímarammar í vetur:

32gja liða: 25. september - 01. desember

16 liða: 01. janúar - 15. febrúar

8 liða: 16. febrúar - 22. mars

Undanúrslit: 23. mars - 11. apríl

ÚRSLIT: 24. apríl í Háskólabíói!

- Minnum lið og þjálfara á að tilkynna okkur um ákveðnar keppnir og gefa upp einn tengilið frá hverju liði ÁÐUR en samningaviðræður hefjast!

Bestu kveðjur,
Stjórnin 

 
Af aðalfundi 2014 - Nýkjörin stjórn MORFÍs
Skrifað af Katrín Sigríður Steingrímsdóttir   
Laugardagur, 13. September 2014 20:39

MORFÍs hefur hafið göngu sína enn eitt árið og við byrjum af krafti.

Fyrst af öllu viljum við tilkynna lagabreytingu sem samþykkt var á aðalfundi MORFÍs þann 11. september síðastliðinn:

28. gr.

Það lið sem á heimavöll skal útvega myndavél til þess að taka upp keppnina sem skal svo sent til stjórnar MORFÍs eigi síðar en tvemur vikum eftir að keppnin átti sér stað.
Það lið sem á heimavöll skal útvega ásættanlega pontu fyrir viðureignina. Sé þess óskað á það lið sem ekki á heimaleik rétt á að prófa pontuna og salinn allan á keppnisdegi fyrir viðureign.
Það lið sem á heimavöll skal útvega hvoru keppnisliði einu herbergi til afnota í keppnishléi sbr. 2. mgr. 36. gr. Keppnisliði er heimilt að skipa gæslumann til að gæta þess að enginn hafi samskipti við hitt liðið í hléi annar en fundarstjóri.
Það lið sem á heimavöll skal útvega dómurum herbergi til afnota á meðan keppni stendur.
Valdi nemendur annars keppnisskólans verulegu eignatjóni á keppnisstað getur stjórn MORFÍs ákveðið að vísa liði skólans úr keppni. Um ábyrgð á tjóninu gilda íslensk lög.

34. gr.

Þar sem MORFÍs stendur fyrir málefnalegum rökræðum skulu vanvirðing og hvers kyns ómálefnalegar aðdróttanir af hálfu þátttakenda eða stuðningsmanna í garð andstæðinga teknar fyrir af stjórn. Þátttakendur í MORFÍs skulu sýna almenna virðingu innan sem utan vallar og sýna gott fordæmi með framkomu sinni. Þátttakendur í MORFÍs skulu reyna eftir bestu getu að viðhalda virðingastöðu keppninnar. 
Þjálfari liðs, sem brýtur þessar siðareglur, ber ábyrgð á sínu liði og skal fjarlægður af dómaralista MORFÍs ásamt öllum liðsmönnum þess skóla. 
Brot á þessari reglu þarf að tilkynna fyrir keppni nema það sé framkvæmt í keppninni sjálfri.
MORFÍs skal skipa úrskurðarnefnd ef að mál sem þetta skyldi koma upp og getur það valdið brottrekstri.

[Lög MORFÍs fyrir 2014-15 eru komin á síðuna undir 'MORFÍS']

 

 

Ný stjórn var kjörin á sama fundi og hana skipa:
Formaður: Katrín Sigríður Steingrímsdóttir fyrir hönd MH
Framkvæmdastjóri: Bjarni Halldór Janusson fyrir hönd FS
Meðstjórnendur: Tómas Geir Howser fyrir hönd FG og Úlfar Viktorsson fyrir hönd Kvennó
Ritari: Sólveig Rán Stefánsdóttir fyrir hönd MA


Í vetur verður lögð áhersla á skipulögð og öguð vinnubrögð á keppnum og í undirbúningi þeirra. Lið verða hvött til þess að hefja dómaraviðræður fyrr og klára þær enn fyrr en áður. Keppnir eiga að hefjast á settum tíma og skulu ekki dragast á langinn að óþörfu.
Þá beinum við því til formanna málfundafélaga að við ætlum að efla samstarf á milli skóla og vera milligöngumenn fyrir þá skóla sem vilja taka enn fleiri æfingakeppnir.

Í vetur viljum við stuðla að drengilegri framkomu, sterkari keppnum með rífandi stemmningu sem hefur ekki sést fyrr.

Þá verður póstur sendur á öll nemendafélög fljótlega með upplýsingum um skráningar og tilkynning um dómaranámskeið fljótlega eftir það.Bestu kveðjur - Stjórnin

 

 
Úrslitum MORFÍs 2014 lokið
Skrifað af Tryggvi Björnsson   
Sunnudagur, 13. Apríl 2014 17:12

Síðastliðið föstudagskvöld átti sér stað frábær keppni í stóra salnum í Háskólabíó.

Menntaskólinn við Sund og Flensborgarskólinn börðust um sigur í Mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskólanna þetta árið og varð Flensborgarskólinn ofan á í þeirri baráttu. Bæði lið stóðu sig með einstakri prýði, eins og keppendum í úrslitakeppni sæmir. Keppnistímabili þessa skólaárs er því lokið og vill stjórnin óska sigurvegurunum til hamingju, Katrínu Ósk fyrir titilinn 'Ræðumaður Íslands 2014', öllum þeim sem hlutu titilinn 'Ræðumaður kvöldsins' á árinu, Guðrúnu Sóleyju fyrir góða fundarstjórn, dómurum fyrir sjálfboðastarf, Háskólabíó fyrir sitt, góðum gestum úti í sal, og öllum þeim sem eiga það skilið.

Stjórn MORFÍs 2013-2014 þakkar kærlega fyrir sig.

Dómaraskjalið frá keppninni má finna í viðhengi hér á heimasíðu okkar.

 
Flensborg - MS Í Háskólabíó 11. apríl
Skrifað af Haukur Einarsson   
Laugardagur, 29. Mars 2014 23:02

Báðar undanúrslitakeppnir eru búnar og því með ljóst hvaða lið mætast í úrslitum en það eru lið Flensborg og MS, Flensborg er þar með kominn i úrslit annað árið í röð.

Fyrri undanúrslitakeppnin fór fram á fimmtudaginn og þar áttust við lið Verzlunarskólans og MS, umræðuefnið var "bjartsýni" og mælti lið Verzlunarskólans með, stigamunur var 4 stig og ræðumaður kvöldsins var Sædis stuðningsmaður MS. 

Síðari undanúrslitakeppnin var svo haldinn á Akureyri þar sem að lið Flensborg og Menntaskólans á Akureyri mættust, umræðuefnið var "forræðishyggja" lið MA var með, stigamunur í þeirri keppni var 69 stig og var það lið Flensborgarskólans sem bar sigur úr býtum og þar með kominn í úrslit annað árið í röð, ræðumaður kvöldsins var Katrín Ósk stuðningsmaður Flensborgarliðsins.

Úrslitin fara fram í Háskólabíó þar sem þau hafa verið haldin svo oft áður, miðasala hefst seinna i vikunni á miði.is.

Dómblöð frá öllum keppnum eru kominn inn á síðuna.

 
Yfirlýsing stjórnar MORFÍs varðandi kvörtun aðstoðarskólameistara MA
Skrifað af Haukur Einarsson   
Laugardagur, 15. Febrúar 2014 15:40

Stjórn MORFÍs lýsir undrun sinni og andstyggð á framkomu keppnisliðs Menntaskólans á Ísafirði gagnvart liði Menntaskólans á Akureyri, einkum einum ræðumanni þess, í keppni liðanna 7. febrúar sl. og aðdraganda hennar. Er sorglegt að vettvangur ræðukeppni framhaldsskóla sé óhreinkaður með hátterni sem verður varla öðru vísi lýst en sem kvenfyrirlitning og kynferðislegt áreiti. Í MORFÍs keppa kynin á jafnréttisgrundvelli, þar á jafnræði að vera í hávegum haft sbr. lög MORFÍs, og eru ekki gerðar minni kröfur um íþróttamannslega framkomu í ræðulistinni en öðrum keppnisíþróttum, jafnvel meiri.
 

Nokkurt réttlæti felst í því að lið Menntaskólans á Ísafirði tapaði stigum hjá dómurum keppninnar vegna framkomu sinnar og beið ósigur í útsláttarkeppni. Lög MORFÍs og umboð stjórnar virðast ekki ná til þess að beita lið viðurlögum fyrir hátterni á borð við framangreint og alls ekki lið sem hafa verið slegin út úr keppni. Rétt er þó að taka fram að skólar geta að eigin frumkvæði skotið ágreiningsmálum til úrskurðarnefndar til endanlegrar úrlausnar á vettvangi keppninnar. Svo eru keppendur í MORFÍs ekki undanþegnir landslögum.
 

Stjórn MORFÍs mun hins vegar beita sér fyrir lagabreytingu á næsta aðalfundi mælskukeppni framhaldsskólanna til að koma málum af þessu tagi í viðunandi horf, bæði um tilgang og markmið keppninnar og viðurlög eða refsingar þegar við á með hliðsjón af slíkum reglum hjá öðrum keppnisgreinum.
 

MORFÍs á að snúast um málefnalega mælsku- og rökræðu og háttvísi. MORFÍs á þar að auki að vera skemmtilegur leikur framhaldsskólanema á landinu og sameiginlegt verkefni sem unnið er í fullri kurteisi og með gagnkvæmri virðingu. Lið MÍ hefur orðið sér til háborinnar skammar og stjórn MORFÍs vonar að allir þátttakendur í keppninni, nú og síðar, dragi nauðsynlegan lærdóm af málinu, svo að kynferðisleg áreitni, kvenfyrirlitning eða önnur ólíðandi framkoma endurtaki sig ekki.

F. hönd stjórnar MORFÍs 2013-2014
Haukur Einarsson, Gunnhildur Sif Oddsdóttir, Tryggvi Björnsson, Katrín Ósk Ásgeirsdóttir og Jóhann Hinrik Jónsson

 
<< Fyrsta < Fyrri 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 Næsta > Síðasta >>

Síða 1 af 32