Úrslitum MORFÍs 2014 lokið
Skrifað af Tryggvi Björnsson   
Sunnudagur, 13. Apríl 2014 17:12

Síðastliðið föstudagskvöld átti sér stað frábær keppni í stóra salnum í Háskólabíó.

Menntaskólinn við Sund og Flensborgarskólinn börðust um sigur í Mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskólanna þetta árið og varð Flensborgarskólinn ofan á í þeirri baráttu. Bæði lið stóðu sig með einstakri prýði, eins og keppendum í úrslitakeppni sæmir. Keppnistímabili þessa skólaárs er því lokið og vill stjórnin óska sigurvegurunum til hamingju, Katrínu Ósk fyrir titilinn 'Ræðumaður Íslands 2014', öllum þeim sem hlutu titilinn 'Ræðumaður kvöldsins' á árinu, Guðrúnu Sóleyju fyrir góða fundarstjórn, dómurum fyrir sjálfboðastarf, Háskólabíó fyrir sitt, góðum gestum úti í sal, og öllum þeim sem eiga það skilið.

Stjórn MORFÍs 2013-2014 þakkar kærlega fyrir sig.

Dómaraskjalið frá keppninni má finna í viðhengi hér á heimasíðu okkar.

 
Flensborg - MS Í Háskólabíó 11. apríl
Skrifað af Haukur Einarsson   
Laugardagur, 29. Mars 2014 23:02

Báðar undanúrslitakeppnir eru búnar og því með ljóst hvaða lið mætast í úrslitum en það eru lið Flensborg og MS, Flensborg er þar með kominn i úrslit annað árið í röð.

Fyrri undanúrslitakeppnin fór fram á fimmtudaginn og þar áttust við lið Verzlunarskólans og MS, umræðuefnið var "bjartsýni" og mælti lið Verzlunarskólans með, stigamunur var 4 stig og ræðumaður kvöldsins var Sædis stuðningsmaður MS. 

Síðari undanúrslitakeppnin var svo haldinn á Akureyri þar sem að lið Flensborg og Menntaskólans á Akureyri mættust, umræðuefnið var "forræðishyggja" lið MA var með, stigamunur í þeirri keppni var 69 stig og var það lið Flensborgarskólans sem bar sigur úr býtum og þar með kominn í úrslit annað árið í röð, ræðumaður kvöldsins var Katrín Ósk stuðningsmaður Flensborgarliðsins.

Úrslitin fara fram í Háskólabíó þar sem þau hafa verið haldin svo oft áður, miðasala hefst seinna i vikunni á miði.is.

Dómblöð frá öllum keppnum eru kominn inn á síðuna.

 
Yfirlýsing stjórnar MORFÍs varðandi kvörtun aðstoðarskólameistara MA
Skrifað af Haukur Einarsson   
Laugardagur, 15. Febrúar 2014 15:40

Stjórn MORFÍs lýsir undrun sinni og andstyggð á framkomu keppnisliðs Menntaskólans á Ísafirði gagnvart liði Menntaskólans á Akureyri, einkum einum ræðumanni þess, í keppni liðanna 7. febrúar sl. og aðdraganda hennar. Er sorglegt að vettvangur ræðukeppni framhaldsskóla sé óhreinkaður með hátterni sem verður varla öðru vísi lýst en sem kvenfyrirlitning og kynferðislegt áreiti. Í MORFÍs keppa kynin á jafnréttisgrundvelli, þar á jafnræði að vera í hávegum haft sbr. lög MORFÍs, og eru ekki gerðar minni kröfur um íþróttamannslega framkomu í ræðulistinni en öðrum keppnisíþróttum, jafnvel meiri.
 

Nokkurt réttlæti felst í því að lið Menntaskólans á Ísafirði tapaði stigum hjá dómurum keppninnar vegna framkomu sinnar og beið ósigur í útsláttarkeppni. Lög MORFÍs og umboð stjórnar virðast ekki ná til þess að beita lið viðurlögum fyrir hátterni á borð við framangreint og alls ekki lið sem hafa verið slegin út úr keppni. Rétt er þó að taka fram að skólar geta að eigin frumkvæði skotið ágreiningsmálum til úrskurðarnefndar til endanlegrar úrlausnar á vettvangi keppninnar. Svo eru keppendur í MORFÍs ekki undanþegnir landslögum.
 

Stjórn MORFÍs mun hins vegar beita sér fyrir lagabreytingu á næsta aðalfundi mælskukeppni framhaldsskólanna til að koma málum af þessu tagi í viðunandi horf, bæði um tilgang og markmið keppninnar og viðurlög eða refsingar þegar við á með hliðsjón af slíkum reglum hjá öðrum keppnisgreinum.
 

MORFÍs á að snúast um málefnalega mælsku- og rökræðu og háttvísi. MORFÍs á þar að auki að vera skemmtilegur leikur framhaldsskólanema á landinu og sameiginlegt verkefni sem unnið er í fullri kurteisi og með gagnkvæmri virðingu. Lið MÍ hefur orðið sér til háborinnar skammar og stjórn MORFÍs vonar að allir þátttakendur í keppninni, nú og síðar, dragi nauðsynlegan lærdóm af málinu, svo að kynferðisleg áreitni, kvenfyrirlitning eða önnur ólíðandi framkoma endurtaki sig ekki.

F. hönd stjórnar MORFÍs 2013-2014
Haukur Einarsson, Gunnhildur Sif Oddsdóttir, Tryggvi Björnsson, Katrín Ósk Ásgeirsdóttir og Jóhann Hinrik Jónsson

 
Dómaranámskeið á Akureyri
Skrifað af Tryggvi Björnsson   
Fimmtudagur, 06. Febrúar 2014 18:47

Sælir, framhaldsskólanemar um land allt.

Með stuttum fyrirvara tilkynnir stjórn MORFÍs hér með að næsta laugardag, 8. febrúar, verður dómaranámskeið haldið á Akureyri kl. 14:00. Námskeiðið fer fram í menntaskólanum á Akureyri og ætlast er til að þeir sem hyggjast mæta skuli gera það tímanlega svo allir geti farið sáttir heim á góðum tíma. Með dómaranámskeiðinu gefst hverjum sem er tækifæri á því að fá dómararéttindi sem gera mönnum kleift að dæma keppnir í MORFÍs. Þetta er kjörið tækifæri fyrir MORFÍs-unnendur sem búa á norðlægum slóðum til að verða loksins dómarar því aldrei er nóg til af þeim. Við vonumst eftir góðri mætingu og óskum ykkur öllum góðs gengis.

 
Úrslit og breyting á tímarömmum
Skrifað af Tryggvi Björnsson   
Þriðjudagur, 28. Janúar 2014 23:20

Á nýloknum stjórnarfundi var ákveðið að úrslit MORFÍs yrðu í Háskólabíói þann 11. apríl næstkomandi.

Samhliða þessari ákvörðun verður því færsla á öllum tímarömmum fram að úrslitum. Rammarnir færast aftur um viku hver, þannig liðin hafa nú meiri tíma til að undirbúa sig. Síðasti keppnisdagur 8-liða úrslita færist því frá 21. febrúar að 28. febrúar og síðasti keppnisdagur undanúrslita færist frá 14. mars að 21. mars. Við vonum að almenn sátt ríki með stöðu mála og við óskum ykkur öllum góðs gengis.

Kær kveðja,
Stjórn MORFÍs.

 
<< Fyrsta < Fyrri 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 Næsta > Síðasta >>

Síða 1 af 32